Íslenskir bankar eru á botninum í mati Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) á heilbrigði banka í 143 ríkjum.
Ráðið hefur nýlega birt árlega skýrslu sína um samkeppnishæfni þjóða en þar var Ísland í 30. sæti en Sviss í öðru sæti.
Í skýrslunni er fjallað um ýmsa þætti viðskiptalífsins og löndum raðað niður. Í töflu yfir heilbrigði banka er Ísland í 141. sæti af 143. Fyrir neðan eru bankar í Úkraínu og á Írlandi, sem raunar er með langlægstu einkunnina. Í næstu sætum fyrir ofan Ísland eru Jemen, Alsír og Búrúndí.
Í efstu sætum á þessum bankalist eru Kanada, Suður-Afríka, Panama, Ástralía, Singapúr, Síle, Nýja-Sjáland, Finnland, Líbanon og Hong Kong. Noregur er í 13. sæti, Svíar í 17. sæti en Danir í 78. sæti með sömu einkunn og Mósambík og Katar.
Íslenska fjármálalífið á ekki upp á pallborðið hjá WEF. Á lista yfir aðgengi að fjármálaþjónustu er Ísland í 97. sæti, í 116. sæti þegar lagt er mat á kostnað við slíka þjónustu, 83 sæti yfir aðgengi að lánum, 70. sæti yfir aðgengi að áhættufjármagni og í 92. sæti þegar mat er lagt á reglur um hlutabréfamarkað.
Listar WEF yfir fjármálalíf landa