Sjálfstæður miðlari í Lundúnum hefur valdið miklu uppnámi með ummælum, sem hann lét falla við breska ríkisútvarpið BBC í gær. Sagði miðlarinn að leiðtogar ríkja heims gætu ekki komið í veg fyrir hrun fjármálamarkaða og að fjárfestingarbankinn Goldman Sachs stjórnaði heiminum.
Viðtal BBC við Alessio Rastani hefur farið eins og eldur í sinu um netheima. Jafnframt er á kreiki hávær orðrómur um að viðtalið sé hrekkur og að Rastani hafi villt á sér heimildir. BBC ber hins vegar á móti því.
Þegar BBC spurði Rastani um viðbrögð þjóðarleiðtoga við skuldakreppunni svaraði hann: „Miðlarar vita að hlutabréfamarkaðurinn er hruninn. Þá er þeim sama um evruna. Flestum okkar er alveg sama um hvernig þeir ætla að bjarga efnahagslífinu, hvernig þeir ætla að bjarga þessu öllu saman - okkar starf er að græða peninga á þessu."
Hann bætti við að í þrjú ár hefði hann dreymt um þetta augnablik. „Ég vil gera játningu, sem er sú að á hverju kvöldi þegar ég fer að sofa dreymir mig um nýtt samdráttarskeið," sagði Rastani.
Fréttaþul BBC virtist nokkuð brugðið og þá bætti Rastani við: „Ríkisstjórnir stýra ekki heiminum. Goldman Sachs stjórnar heiminum. Goldman Sachs er alveg sama um björgunaráætlanir og það sama má segja um stóru sjóðina."
Ummæli Rastanis vöktu þegar mikla athygli. Ýmsir veltu því fyrir sér hvort Rastani væri félagi í samtökunum The Yes Men, bandarískum hópi aðgerðasinna, sem báru ábyrgð á því að röng frétt birtist árið 2004 hjá BBC um að efnaframleiðandinn Dow Chemical myndi greiða fórnarlömbum eiturefnaslyss í Bhopal á Indlandi skaðabætur.
Í samtali við fréttavef Forbes þvertók Rastani fyrir að hann tengdist The Yes Men og fullyrti að hann væri sjálfstætt starfandi miðlari.
BBC sagðist einnig hafa rannsakað feril Rastani og ekkert benti til þess að hann hefði villt á sér heimildir.
Í viðtalinu sagðist Rastani vilja hjálpa fólki: „Það fyrsta sem fólk ætti að gera er að verja eignir sínar því ég spái því að innan árs muni sparnaður milljóna manna gufa upp - og það er bara upphafið," sagði hann.