Ótrúlegur dagur er að baki í evrópskum kauphöllum þar sem allar helstu hlutabréfavísitölur hækkuðu um 4% eða meira. Meðal annars hækkuðu hlutabréf franska bankans BNP Paribas um 14,38% en ekkert félag sem myndar helstu hlutabréfavísitölur í París, Lundúnum og Frankfurt lækkaði í verði í dag.
En BNP Paribas var ekki eini bankinn í París sem hækkaði hressilega í verði því Société Generale hækkaði um 13,68% og Credit Agricole hækkaði um 12,14%. Nýverið lækkaði Moody's lánshæfiseinkunn tveggja fyrrnefndu bankanna og setti þann þriðja á athugunarlista með mögulegri lækkun. CAC hlutabréfavísitalan hækkaði um 5,74%.
Í Frankfurt hækkaði DAX-hlutabréfavísitalan um 5,3%, FTSE-100 vísitalan í Lundúnum hækkaði um 4,2% og í Mílanó hækkaði FTSE Mib-vísitalan um 4,9%. Í Madríd hækkaði Ibex-vísitalan um 4,03% og í Sviss hækkaði vísitalan um 3,03%.
Í Bandaríkjunum hefur Dow Jones-vísitalan hækkað um 2,37%, S&P 500 um 2,29% og Nasdaq hefur hækkað um 2,24% en viðskiptum lýkur ekki fyrr en klukkan átta að íslenskum tíma í kvöld í kauphöllinni í New York.