Væntingavísitöla Gallup, sem birt var í dag, hækkar um nærri 20 stig frá síðasta mánuði og hefur ekki verið hærri í rúmt ár. Neytendur eru einkum bjartsýnir á að efnahagsástandið muni batna þegar frá líður.
Vísitalan hækkar úr 50,1 stigi í 69,4 stig. Sú undirvísitala, sem mælir væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði er nú 99,8 stig, sem þýðir að nánast jafn margir svarendur eru bjartsýnir og svartsýnir á ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar að hálfu ári liðnu.
Mat á núverandi ástandi er hins vegar áfram lágt, 23,7 stig, og stendur nánast í stað milli mánaða.
Í Morgunkorni Íslandsbanka, þar sem fjallað er um vísitöluna, segir að það hljóti að koma nokkuð á óvart hversu bjartsýni á ástandið að hálfu ári liðnu hafi aukist á sama tíma og efnahagshorfur á alþjóðavísu hafi hríðversnað og nýlegar spár geri ráð fyrir talsvert lakara efnahagsástandi á heimsvísu á næsta ári en áður var búist við.
Væntingar neytenda í helstu iðnríkjum hafi enda lækkað verulega á ofanverðu sumri. Þá verði ekki séð að neitt nýtt hafi komið fram á síðustu vikum sem auka ætti landanum bjartsýni á efnahagshorfur hérlendis til skemmri tíma litið.