Fréttaskýring: Samstarf gegn skuldakreppu

Barroso (t.v.) og Angela Merkel skemmtu sér í afmælisveislu í …
Barroso (t.v.) og Angela Merkel skemmtu sér í afmælisveislu í München í gær. reuters

Skilaboð José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í ávarpi á Evrópuþinginu í gær urðu ekki til þess að auka traust fjárfesta á stöðu mála á evrusvæðinu. Skilaboðin voru hinsvegar afgerandi: Evrópa stendur á krossgötum vegna skuldakreppunnar á evrusvæðinu og lausnarorðið felst í enn frekari dýpkun samrunaferlisins.

Barroso sagði í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að auka sveigjanleika þeirra úrræða sem hinum 440 milljarða evra björgunarsjóði ESB er heimilt að beita. Hann lagði ennfremur áherslu á að hreinn meirihluti í atkvæðagreiðslu aðildarríkjanna stýrði gjörðum sjóðsins, í stað þess að leitað væri eftir samstöðu, þar sem ótækt væri að hraði viðbragða við skuldakreppunni réðist af afstöðu svifaseinustu ríkjanna.

Í sjálfu sér er ekki fréttnæmt að þessi skoðun komi úr ranni framkvæmdastjórnarinnar, en önnur áhersluatriði vöktu meiri athygli og þá fyrst og fremst tillögur Barroso um að lagður yrði svokallaður Tobin-skattur á fjármagnsflutninga innan sambandsins. Barroso sagði í ræðu sinni að betur færi á því að framkvæmdastjórnin stýrði þessum breytingum í stað þess að sjálf aðildarríki ESB kæmu sér saman um þær.

Ennfremur sagði forsetinn að framkvæmdastjórn ESB myndi á næstunni leggja fram tillögur sínar um útgáfu á sameiginlegu skuldabréfi evrusvæðisins, en sem kunnugt er hefur mjög verið litið til slíkrar útgáfu sem lausn á þeim vanda sem steðjar að evrusvæðinu.

Boðar tillögur í andstöðu við ráðandi öfl innan sambandsins

Fram kom í máli Barroso að allar þessar tillögur rúmuðust innan þeirra heimilda sem Lissabon-sáttmálinn veitir og þar af leiðandi væri hægt að hrinda þeim í framkvæmd án þess að til tímafrekrar vinnu að nýjum sáttmála komi.

Þrátt fyrir afgerandi yfirlýsingar Barroso er ljóst að sterk öfl á vettvangi evrópskra stjórnmála eru ósammála þeim leiðum sem forsetinn lagði til í ræðu sinni. Þótt hann hafi talað um sveigjanleika björgunarsjóðsins í ræðu sinni þykir ljóst að þar með hafi hann vísað til hugmynda um að hann yrði styrktur með skuldsetningu, en rætt hefur verið um að nauðsynlegt sé að „gíra“ hann upp þannig að hann hafi fjárfestingagetu upp á tvö þúsund milljarða evra. Sú hugmynd kom fram um helgina á haustfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er hún sögð runnin undan rifjum embættismanna framkvæmdastjórnarinnar og ráðamanna í fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, var hinsvegar fljótur að kveða niður þær hugmyndir, meðal annars með því að benda á að skuldakreppan yrði ekki leyst með frekari skuldsetningu. Þá varaði matsfyrirtækið Standard & Poor's við því að slík „gírun“ sjóðsins myndi að öllum líkindum grafa undan lánshæfiseinkunn hans, sem og aðildarríkja hans.

Að sama skapi verður ekki séð að ummæli Barroso, um að framkvæmdastjórn ESB muni á næstunni koma með tillögur að útfærslu útgáfu sameiginlegs skuldabréfs aðildarríkja evrusvæðisins, séu trúverðug. Hugsunin að baki slíkri útgáfu er skref í átt að sameiginlegri efnahagsstjórn, með sameiginlegri lánasýslu á myntsvæðinu. Auk þess ætti slík útgáfa að lækka fjármögnunarkostnað verst stöddu ríkjanna, en það gerist eðli málsins samkvæmt ekki án þess að það leiði til hærri fjármögnunarkostnaðar betur staddra ríkja. Ljóst er að markaðir munu ekki bíða í ofvæni eftir þessum tillögum framkvæmdastjórnarinnar, þar sem Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur ítrekað útilokað þá lausn. Auk þess hefur þýski stjórnlagadómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að þýsk lög myndu ekki heimila þátttöku stjórnvalda í Berlín í slíkum gjörningi.

Það er ekki síst þess vegna sem flestir erlendir miðlar leiddu umfjöllun sína um ræðu Barroso í gær með tilvísun í ummæli hans um skatt á fjármagnsflutninga. Það er raunhæft að slíkur skattur verði lagður á, en ekkert bendir til þess að það dugi til að kveða niður skuldakreppuna á evrusvæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK