Fiðringur hefur verið í netheiminum yfir helgina eftir að kínverski netjöfurinn Jack Ma lýsti yfir miklum áhuga á að kaupa bandaríska netveldið Yahoo, helst í heilu lagi.
Ma lét þessi ummæli falla á ráðstefnu við Stanfordháskóla, þar sem verið var að ræða viðskiptamöguleika Kína sem nýs risa á netinu. Ma er stofnandi og aðaleigandi kínverska verslunarvefjarins Alibaba.com. Hann rataði m.a. á lista Forbes yfir 25 valdamestu viðskiptamenn Asíu árið 2005, og lenti í hópi bestu leiðtoga heims í samantekt Bloomberg árið 2007.
Við þessi ummæli hækkuðu hlutir í Yahoo um meira en 5% í viðskiptum eftir lokun markaða. Frá áramótum hafa hlutir í Yahoo lækkað um 21%.
Yahoo á í dag 40% hlut í Alibaba.
Að því er Bloomberg greinir frá sendu stjórnendur Yahoo frá sér yfirlýsingu á dögunum á þá leið að fyrirspurnir hefðu borist frá mörgum aðilum um væntanleg kaup. Hefur Bloomberg eftir markaðsráðgjafa að náin tengsl Ma og Yahoo þýði að hann sé í góðri aðstöðu til að setja saman gott tilboð.