Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar og formaður stýrihóps evrusvæðisins, sagði eftir fund fjármálaráðherra evrusvæðisins í Lúxemborg í kvöld, að engin hætta væri á því að gríska ríkið lenti í greiðslufalli og Grikkir væru ekki á leið burt af evrusvæðinu.
Juncker sagði, að evruríkin hefðu beðið grísk stjórnvöld að herða róðurinn í niðurskurði ríkisfjármála á árunum 2012 og 2013 til að tryggja, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins staðfesti efnahagsáætlun Grikkja á fundi sem boðaður hefur verið 13. október. Það myndi leiða til endanlegrar niðurstöðu í október en Grikkir segist nú ekki þurfa 8 milljarða evra lán fyrr en í nóvember.
Juncker vísaði því á bug, að eitthver ríki á evrusvæðinu vildu að Grikkjum yrði leyft að afskrifa hluta skulda sinna eins og orðrómur hefur verið um. Þá sagði hann, að samkomulag hefði náðst við Finna um frekari fjárhagsaðstoð evrusvæðisins við Grikki en Finnar kröfðust tryggingar fyrir því að fá slík fjárframlög endurgreidd.