Fjármálaráðherrar evruríkjanna frestuðu því í dag að taka ákvörðun um frekari aðstoð við Grikkland. Þetta leiddi til mikillar lækkunar á hlutabréfamörkuðum.
Fyrir liggur að Grikkland getur ekki staðið við skuldbindingar sínar fái landið ekki frekari lánafyrirgreiðslu. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær ríkissjóður Grikklands tæmist, en talað hefur verið um að hann þoli óbreytt ástand í nokkrar vikur en ekki mánuði.
Reiknað hafði verið með að fjármálaráðherrar evruríkjanna myndu taka ákvörðun um frekari stuðning við Grikkland á fundi sínum 13. október, en nú liggur fyrir að engin ákvörðun verður tekin á þeim fundi. Þar með er ljóst að Grikkland fær ekki meira að láni fyrr en í fyrsta lagi í nóvember.
Markaðurinn tók þessum tíðindum ekki vel og tóku hlutabréfavísitölur dýfu í dag. Franska vísitalan féll um 2,6%, sú þýska um 3% og breska um 2,6%.