Fjármögnunarfyrirtækin SP – Fjármögnun hf. og Avant hf. verða í dag sameinuð Landsbankanum.
Fjármálaeftirlitið hefur nú þegar samþykkt samruna Avant hf. og SP Fjármögnunar hf. við Landsbankann hf. á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki.
Engar breytingar verða á högum viðskiptavina SP- fjármögnunar og Avant við þennan samruna . Landsbankinn mun taka við öllum réttindum og skyldum Avant og SP-Fjármögnunar.
Landsbankinn eignaðist SP-fjármögnun að fullu árið 2009 en gamli Landsbankinn hafði áður átt 51% hlut í félaginu frá árinu 2002. Bankinn eignaðist 99% hlutafjár í Avant í febrúar síðastliðinn í kjölfar nauðasamninga.
Við sameininguna verða fyrirtækin ekki lengur sérstök fyrirtæki heldur bætist við sjötta tekjusvið Landsbankans sem nefnist Bíla- og tækjafjármögnun.
Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP - Fjármögnunar verður framkvæmdastjóri hins nýja tekjusviðs. Nýir forstöðumenn sviðsins eru Hafdís Böðvarsdóttir, Helgi Þór Gunnarsson, Herbert Svavar Arnarson, Pétur Gunnarsson, Regína Sigurgeirsdóttir og Stefán Örn Bjarnarson.