Tap á rekstri Byrs hf. fyrstu sex mánuði ársins nam 941 milljón króna að teknu tilliti til afskrifta.
Í tilkynningu frá Byr kemur fram að óhagstæð þróun á ríkisskuldabréfamarkaði leiddi til 523 milljóna króna gengistaps á tímabilinu.
Eigið fé Byrs nemur 7.930 milljónum króna. Fjármálaeftirlitið hefur heimilað Íslandsbanka hf. að eiga virkan eignarhlut í Byr hf. Að teknu tilliti til skráningar Íslandsbanka hf. fyrir nýju hlutafé í Byr hf. að fjárhæð 10.000 millj. kr. reiknast eiginfjárhlutfall (CAD) Byrs hf. 13,5% miðað við fjárhæðir í júnílok 2011. Ef dregið væri á víkjandi lán frá ríkissjóði samkvæmt samkomulagi frá 14. október 2010 að fjárhæð 5.000 millj. kr. reiknast eiginfjárhlutfall (CAD) 18,2%. Eiginfjárhlutfall (CAD-hlutfall) reiknast 4,1% í lok júní 2011.
Jón Finnbogason, forstjóri Byrs, segir í tilkynningu: „Fyrirhugaður samruni Byrs og Íslandsbanka er enn til skoðunar hjá eftirlitsaðilum en hins vegar hefur Fjármálaeftirlitið nú þegar samþykkt að Íslandsbanka hf. sé heimilt að eiga virkan eignarhlut í Byr hf. Á tímabilinu hefur verið lokið við endurútreikning gengislána skv. lögum 151/2010, unnið að niðurfærslu skulda í samræmi við 110% leiðina og sértækri skuldaaðlögun ásamt öðrum úrræðum. Þessar aðgerðir eru til þess fallnar að bæta stöðu heimila og fyrirtækja. Vonir standa til að framangreint muni einnig hafa jákvæð áhrif á reglubundna starfsemi bankans.“