„Það er mikilvægt að bankar læri af reynslunni og að útlán þeirra séu að fullu fjármögnuð þannig að ekki myndist ójafnvægi á eigna- og skuldahlið efnahagsreikningsins.“
Þetta segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í fréttaskýringu um óverðtryggð lán í Morgunblaðinu í dag, aðspurð hvort bankinn feti í fótspor Landsbankans og Arion sem bjóða nú óverðtryggð fasteignalán með föstum vöxtum.
Íslandsbanki stefnir á að bjóða slík lán á næstunni þar sem bankinn hefur nú fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til útgáfu sérvarinna skuldabréfa. Landsbankinn tilkynnti í gær að hann myndi bjóða óverðtryggð fasteignalán með föstum vöxtum. Bankinn fylgir í kjölfar Arion sem tilkynnti slík lán á dögunum. Landsbankinn hyggst fjármagna lánin með innlánasöfnun en Arion hyggst klára skuldabréfaútboð á næstunni vegna fjármögnunarinnar.