Yfirtaka Arion banka á þriðjungshlut í HB Granda brýtur ekki gegn lögum um erlenda fjárfestingu, jafnvel þótt bankinn sé í raun í eigu útlendra kröfuhafa. Þetta er mat framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þetta kom fram í fréttum RÚV í hádeginu.
Framkvæmdastjóri LÍÚ segir það ekki brjóta gegn reglum um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi þótt Arion banki hafi í gær eignast þriðjungshlut í stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.
Arion banki, sem er í gegnum skilanefnd gamla Kaupþings að mestu í eigu erlendra kröfuhafa, eignaðist í gær þriðjungshlut í HB Granda eins og sagt var frá í fréttum. Grandi er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.
Það hefur yfir að ráða 10,4% af öllum fiskveiðikvóta á Íslandsmiðum samkvæmt vef Fiskistofu.
Þar með hafa útlendingar, þótt með óbeinum hætti sé, eignast stóran hlut í íslenskum fiskveiðiheimildum, en á því eru hömlur samkvæmt lögum.
Þetta virðist þó innan lagarammans segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna.