Atvinnuleysi mældist að meðaltali 8,2% í ríkjum OECD, efnahags- og framfarastofnunarinnar, í ágúst. Á Íslandi mældist atvinnuleysið hins vegar 6,7% í ágúst. Atvinnuleysi er einungis minna en á Íslandi í þremur ríkjum Evrópu sem eru innan OECD.
Samkvæmt upplýsingum frá OECD hefur atvinnuleysi haldist óbreytt á svæðinu frá því í janúar. Á evru-svæðinu mælist atvinnuleysið 10% og hefur ekki breyst frá því í nóvember 2010.
Í Austurríki mælist atvinnuleysi 3,7%, Lúxemborg 4,9% og 4,4% í Hollandi. Hins vegar mælist það 14,6% á Írlandi, 12,3% í Portúgal, 13,4% í Slóvakíu og 21,2% á Spáni.
Alls voru 44,3 milljónir manna án atvinnu í ríkjum OECD í ágúst 2011. Er þetta fækkun um 2,3 milljónir frá því ágúst í fyrra en 10,4 milljónum fleiri heldur en í ágúst 2008.