Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað töluvert í morgun á meðan beðið er eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslu á þinginu í Slóvakíu um framtíð björgunarsjóðs evrusvæðisins.
Framkvæmdastjóri OPEC, helstu olíuframleiðenda í heimi, Abdullah El-Badri, hefur hins vegar enga trú á því að kreppa sé yfirvofandi í heiminum á sama tíma og samtökin ákváðu að draga úr framleiðslu þriðja mánuðinn í röð.
Í Lundúnum hefur verð á Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í nóvember lækkað um 81 sent og er 108,14 dalir tunnan.
Í New York hefur verð á hráolíu lækkað um 64 sent og er 84,77 dalir tunnan.