Evrópskir bankar sem þurfa á endurfjármögnun að halda verða jafnvel neyddir til þess að þiggja slíka endurfjármögnun, segir Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar og forsvarsmaður fjármálaráðherra á evru-svæðinu.
Í útvarpsviðtali í morgun við Juncker kom fram að einhverjir evrópskir bankar þurfi á endurfjármögnun að halda. Þar sem þörf er á endurfjármögnum verði að grípa inn og tryggja að það gerist svo þeir skapi ekki hættu fyrir allt fjármálakerfið.
Bankastjóri Deutsche Bank, Josef Ackermann, sagði í gær að umræðan um endurfjármögnun banka væri ekki í takt við stöðuna á markaðnum þar sem flestir bankar hefðu bætt stöðu sína sjálfir nú þegar. Það að dæla peningum inn í bankana myndi ekki takast á við rót vandans í Evrópu.
Samtök þýskra banka, BdB, hafa gefið út svipaðar yfirlýsingar, að skuldakreppan á evru-svæðinu sé ekki bankakreppa heldur skuldakreppa ríkja.