Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna fyrirhugaðs samruna Íslandsbanka og Byrs hf. Áður hefur Fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Íslandsbanki er hæfur til að fara með virkan eignarhlut sem nemur svo stórum hluta að BYR hf. verði talið dótturfyrirtæki bankans.
Hin fyrirhugaða sameining er enn til meðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu og ESA, Eftirlitsstofnun EFTA. Þá þarf fjármálaráðuneytið, fyrir hönd ríkisins, heimild Alþingis fyrir sölu á eignarhlut sínum í Byr. Starfsemi fyrirtækjanna verður óbreytt á meðan beðið er samþykkis ofangreindra aðila.
Sterkar vísbendingar um að samruni auki skaðlega fákeppni
Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar yfirtöku Íslandsbanka á Byr en fyrirtækin eru keppinautar á fjármálamarkaði. Í ákvörðun eftirlitsins kemur fram að sterkar vísbendingar séu um að þessi samruni muni auka skaðlega fákeppni.
Samrunaaðilar hafa hins vegar borið því við að heimila yrði samrunann á vegna reglna samkeppnisréttarins um fyrirtæki á fallanda fæti (e. failing firm defence). Er í því sambandi vísað til alvarlegrar stöðu Byrs. Viðurkennt er að slík aðstaða fyrirtækis geti leitt til þess að heimila beri samruna. Ástæðan er sú að í slíkum tilvikum stafa samkeppnishömlurnar ekki af samrunanum sem slíkum heldur af erfiðri stöðu hins yfirtekna fyrirtækis.
Sökum þessa hefur Samkeppniseftirlitið framkvæmt viðamikla rannsókn á stöðu Byrs, hvernig staðið var að sölu fyrirtækisins og hvort fyrir hendi hafi verið aðrir raunhæfir möguleikar á sölu Byrs sem væru hagfelldari fyrir samkeppni. Hefur eftirlitið í því sambandi aflað gagna og sjónarmiða frá m.a. innlendum og erlendum fyrirtækjum sem sýndu áhuga á að kaupa Byr og leitað viðhorfa Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytsins.
Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að fjárhagsstaða Byrs sé mjög slæm og liggur fyrir að kröfur laga um eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækja séu ekki uppfylltar. Eftirlitið telur að söluferli Byrs hafi verið tilteknum annmörkum háð en að raunhæfir möguleikar á annarri sölu en til Íslandsbanka hafi ekki verið fyrir hendi. Þá skiptir hér umtalsverðu máli að upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu sýna að ef þessi samruni gengi ekki eftir myndi stofnunin beita heimildum sínum og færa inn- og útlán Byrs til einhvers stóru viðskiptabankanna.
Af þessu öllu leiðir að skilyrði um fyrirtæki á fallanda fæti eru uppfyllt og Samkeppniseftirlitið hefur því ekki heimildir að lögum til þess að hafa frekari afskipti af samrunanum. Samkeppniseftirlitið er þeirrar skoðunar að þessi óhjákvæmilega niðurstaða skaði samkeppni þar sem hún eykur samþjöppun og fákeppni. Það er því afar brýnt að Samkeppniseftirlitið og aðrir hlutaðeigandi aðilar beiti sér fyrir því að á milli viðskiptabankanna þriggja eigi sér ekki stað nein samvinna eða samskipti sem skaðar samkeppni viðskiptalífinu og almenningi til tjóns.