Lögbirtingablaðið hefur birt auglýsingu um uppboð á fjórum jörðum í eigu jarðafélagsins Lífsvals. Gerðarbeiðandi er Landsbankinn.
Jarðirnar eru Flatey, Haukafell og Kyljuholt á Hornafirði og jörðin Barkarstaðir í Húnaþingi. Uppboðin eru auglýst vegna vanskila á skuld við Landsbankann upp á rúmlega 562 milljónir.
Lífsval á um 45 jarðir víða um land. Landsbankinn er hluthafi í félaginu. Lífsval rekur þrjú kúabú og mjólkurkvóti félagsins er um 1,2 milljónir lítra sem er um 1% af öllum mjólkurkvóta í landinu. Á Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu rekur Lífsval eitt stærsta kúabú landsins. Félagið rekur auk þess tvö sauðfjárbú.