Frakkar og Þjóðverjar eru reiðubúnir til þess að samþykkja stækkun björgunarsjóðs evru-svæðisins í tvö þúsund milljarða evra en sjóðurinn er nú 440 milljarðar evra. Þetta kom fram á vef breska dagblaðsins Guardian í gærkvöldi og hafði fréttin þegar mikil áhrif á markaði.
Fréttin kemur í kjölfar tilkynningar um að Moody's íhugi að lækka lánshæfiseinkunn Frakklands en í gærkvöldi var lánshæfiseinkunn spænska ríkisins lækkuð.
Samkvæmt frétt Guardian vonast leiðtogar Frakklands og Þýskalands til þess að þetta geti róað markaði en vandi evru-svæðisins verður meðal annars ræddur á fundi G20 ríkjanna í Cannes í næsta mánuði.