Opnað verður fyrir fjárfestingar með aflandskrónum í íslenska hagkerfinu í byrjun nóvember. Þá mun Seðlabankinn hrinda í framkvæmd svokallaðri fjárfestingaleið sem búið er að kynna sem lið í átt að afnámi gjaldeyrishafta.
Í umfjöllun um mál þetta í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag segir, að fjárfestingaleiðin gangi út á að beina aflandskrónum, það er að segja krónueign erlendra aðila sem lýtur takmörkunum vegna gjaldeyrishafta, í innlenda fjárfestingu til lengri tíma.
Eigendum þeirra verður heimilt að flytja þær með milligöngu innlendra fjármálafyrirtækja í fjárfestingu séu þeir reiðubúnir að leggja 50% af andvirði fjárfestingarinnar fram í erlendum gjaldeyri. Auk þess verður aðilum sem flytja gjaldeyri til landsins gert kleift að selja 50% gjaldeyrisins í Seðlabankanum á útboðsgengi enda renni andvirðið til innlendra fjárfestinga.