Álverð hefur fallið talsvert síðustu daga og er nú lægra en verið hefur frá septemberlokum í fyrra. Við lokun markaða í gær var framvirkt verð til 3ja mánaða á áli á LME-markaðinum 2.085 Bandaríkjadalir/tonnið. Hafði álverð þá lækkað um fjórðung frá maíbyrjun, þegar áltonnið var selt á tæplega 2.800 dali á markaði.
Meðal þeirra ástæðna sem nefndar eru fyrir lækkuninni síðustu daga er að nýlega birtar tölur frá Alþjóðaálstofnuninni (IAI) sýna að framleiðsla áls hefur nú náð sama magni og fyrir hrun, en talið er að á heimsvísu, að Kína frátöldu, hafi álframleiðsla í september numið 70.600 tonnum á dag að jafnaði.
Bentu stjórnendur Alcoa á það við kynningu á síðasta uppgjöri sínu að líklega væri framboð áls á þessu ári, ef Kína væri undanskilið, u.þ.b. 1 milljón tonna umfram eftirspurn þetta árið. Hins vegar er talið að Kínverjar þurfi á umtalsvert meira áli að halda en framleitt er í landinu, þótt innflutningstölur þar á bæ hafi ekki endurspeglað það nema að hluta upp á síðkastið, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.
Fram til þessa hefur umframálinu verið haldið utan markaðar af fjárfestum, og eru þannig u.þ.b. 4,6 m.tonn geymd í vöruhúsum víðsvegar um heiminn þessa dagana. Þessa geymslu álsins þarf hins vegar að fjármagna, og hefur það orðið þyngri róður eftir því sem skuldakreppan í Evrópu hefur sett mark sitt á fjármálamarkaði. Gæti það aukið töluvert við framboð áls á markaði á næstunni. Auk þessa hafa horfur um eftirspurn áls verið að versna undanfarið, líkt og raunin er með margar aðrar hrávörur, eftir því sem efnahagshorfur á heimsvísu hafa versnað. Hefur það haft neikvæð áhrif á álverð frá áliðnu síðasta sumri rétt eins og á hrávöruverð almennt," segir í Morgunkorni.
Hefur veruleg áhrif hér á landi
Þróun álverðs skiptir íslenska hagkerfið verulegu máli, enda eru framleidd hér u.þ.b. 830 þús. tonn á ári, sem svarar til nálega 2% af heimsframleiðslu áls. Á fyrstu átta mánuðum ársins nam útflutningsverðmæti áls tæplega 155 mö.kr., og jókst verðmæti útflutningsins um tæp 6% á milli ára þrátt fyrir ríflega 4% samdrátt í útfluttu magni og 2% sterkari krónu að jafnaði þetta árið en í fyrra.
Verðmæti álútflutningsins er nánast hið sama og útflutningsverðmæti sjávarafurða þessa dagana, og er vægi hvorrar greinar fyrir sig u.þ.b. 25% af heildarútflutningstekjum Íslands.
Eftir lækkunina undanfarið er álverð nú nálægt meðalverði áranna 2001-2010 á heimsmarkaði og er því vart hægt að fullyrða að verðið sé lágt í sögulegum skilningi í dollurum talið þrátt fyrir óhagfelldar aðstæður á markaði þessa dagana. Hins vegar er á það að líta að verðlag hefur almennt hækkað á þessum tíma. Til að mynda hefur neysluverð í Bandaríkjunum hækkað um u.þ.b. 27% frá síðustu aldamótum, og í ljósi þess er álverð ekki ýkja hátt, segir í Morgunkorni.