Það er verið að herja á lífeyrissparnað almennings í landinu með áformuðum lagabreytingum á skattaafslætti vegna viðbótarlífeyrissparnaðar – og lífeyrissjóðakerfið mun bregðast hart við öllum slíkum breytingum.
Þetta kom fram í erindi Þóreyjar S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, á fræðslufundi sem haldinn var í gær á vegum VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka.
Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjárlaga árið 2012 munu launþegar ekki lengur eiga þess kost að greiða allt að 4% af tekjum sínum í séreignarsparnað, því stjórnvöld áforma að skattleggja séreignarsparnað umfram 2% af launum. Lárus Páll Pálsson, verkefnisstjóri hjá Lífeyrisþjónustu VÍB, benti á það í framsögu sinni að samkvæmt núgildandi skattakerfi yrði séreignarsparnaður skattlagður tvívegis yrðu samningar launþega ekki lækkaðir. Því þyrfti að lækka samninga í 2% ef af lagabreytingunni yrði.
Þórey sagði ljóst að gengju þessi áform eftir, myndi lífeyrissparnaður rakleiðis minnka, enda væri ekki lengur um að ræða valkost fyrir launþega – það myndi aldrei borga sig að greiða meira en 2% af launum í séreignarsparnað.