Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu í dag að gerðar yrðu breytingar á stjórnarsáttmála sambandsins ef sýnt væri fram á nauðsyn þess til að ná samræmi og aga í efnahagsmálum en leiðtogar aðildarríkjanna 27 sátu á fundi í dag með það að markmiði að vinna bug á fjárhagsvanda evruríkjanna.
Herman Van Rompuy, forseti ESB, segir að afloknum fundi leiðtoganna, að ákveðið hafi verið að kanna möguleikann á breytingum á Lissabon-sáttmálanum ef það gæti orðið evrunni til bjargar. Mestu máli skipti að ná efnahagslegu samræmi.
Ógn við framtíð ESB
Ekki voru allir jafn hrifnir af þeim hugmyndum að breyta ESB-sáttmálanum en Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, sagði að með því opna aftur fyrir endurskoðun á Lissabon-sáttmálanum, sem tók tíu ár að komast að samkomulagi um, væri verið að opna box Pandóru, sem gæti ógnað framtíð ESB.
Í gær lagði Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, til að sáttmálanum yrði breytt þannig að þau aðildarlönd sem lifðu um efni fram yrðu dregin fyrir Evrópudómstólinn. Hlaut tillagan litlar undirtektir.