Samkomulag hefur náðst um kaup MP banka á Júpíter rekstrarfélagi hf. Félagið var áður að hluta í eigu bankans en aðrir eigendur voru starfsmenn félagsins, þeir Ragnar Dyer, Sigurður Hannesson og Styrmir Guðmundsson. Þeir munu allir starfa áfram hjá félaginu. Kaupverð er trúnaðarmál, að því er segir í tilkynningu.
Fram kemur að áfram verði lögð áhersla á sjálfstæði félagsins og að hagsmunir Júpíters og viðskiptavina þess séu samtengdir.
Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila.
Júpíter sérhæfir sig í stýringu fjármuna og starfrækir fjóra verðbréfasjóði og einn fagfjárfestasjóð. Viðskiptavinir félagsins eru meðal annars lífeyrissjóðir, tryggingafélög, eignastýringarsvið fjármálafyrirtækja, önnur rekstrarfélög og efnameiri einstaklingar. Hagnaður Júpíters nam 92,2 milljónum króna eftir skatta á árinu 2010.
Eignir í stýringu Júpíters nema um 10,5 milljörðum króna. Eignir í stýringu innan MP banka munu því nema samtals 54 milljörðum króna eftir kaupin. Sameiginlegt markmið kaupanda og seljenda er að styrkja vöruþróun innan Júpíters og MP banka og þannig bjóða upp á áhugaverða fjárfestingarkosti fyrir fjárfesta.