Sameiginleg sturlun

Willem Buiter á ráðstefnunni í Hörpu.
Willem Buiter á ráðstefnunni í Hörpu.

Wil­lem Buiter, aðal­hag­fræðing­ur Citigroup, á ráðstefnu ís­lenskra stjórn­valda og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins, sem hald­in er í Hörpu í dag, lá ekk­ert á skoðunum sín­um og sagði m.a. að Ísland hefði ára­tug­inn fyr­ir hrun hefði verið dæmi um „sam­eig­in­lega sturlun" þar sem heil­brigð skyn­semi hefði farið lönd og leið.

„Þetta var einskon­ar sam­eig­in­leg heimska, sem ég hef ekki séð í þróuðum lönd­um," sagði Buiter. Hann sagðist ekki skilja hvernig svona lít­illi þjóð hafi dottið í hug að hún gæti stutt þrjá alþjóðlega banka með eign­ir sem voru nærri 1000% meiri en lands­fram­leiðslan.

„Þið skulið vona að evr­an lifi af og að Evr­ópu­sam­bandið lifi af. Þá skulið þið ganga í Evr­ópu­sam­bandið og taka upp evr­una," sagði Buiter. „Það myndi þýða að þið hefðuð enga þörf fyr­ir sjálf­stæðan seðlabanka og fjár­mála­eft­ir­lit og von­andi mun Evr­ópa þró­ast í átt að sam­eig­in­legu fjár­mála- og banka­eft­ir­liti, sagði Buiter.

Buiter lýsti þeirri skoðun, að of mikl­ar skuld­ir væru í ís­lenska kerf­inu og það sé ein ástæða þess að hag­vöxt­ur hér á landi sé ekki eins mik­ill og hann ætti að vera. Skuld­ir heim­ila eru of mikl­ar, sömu­leiðis skuld­ir fyr­ir­tækja, skuld­ir banka og skuld­ir rík­is­ins. Það sem Ísland þyrfti á að halda væri einskon­ar trú­ar­hátíð þar sem „skuld­ir væru fyr­ir­gefn­ar" á 50 ára fresti eða svo.

Um Ices­a­ve-skuld­irn­ar sagði Buiter að þar hefðu all­ir hagað sér illa, þar á meðal Hol­land og Bret­land sem hefðu sýnt af sér yf­ir­gang og sjálfs­elsku með því að lýsa því yfir að Ices­a­ve-skuld­bind­ing­arn­ar væru á ábyrgð ís­lenska rík­is­ins, þótt svo hefðu aug­ljós­lega ekki verið.

En Ísland hefði aug­ljós­lega jafn­framt brotið regl­ur Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins með því að skilja á milli inn­lendra og er­lendra inni­stæðueig­enda ís­lensku bank­anna. Góðu frétt­irn­ar virt­ust þó vera þær, að eign­ir Lands­bank­ans virt­ust ætla að nægja fyr­ir Ices­a­ve-inni­stæðunum.

Þá sagði Buiter, að varðandi inn­lendu skuld­irn­ar ætti annaðhvort að af­skrifa þær eða breyta þeim í hluta­fé. Buiter sagði að svo­nefnd 110% leið, sem nú er verið að fara hér á landi, væri „brjálæði." Lækka ætti skuld­irn­ar niður í 70% og láta bank­ana breyta af­gang­in­um í hluta­fé.

Hann gagn­rýndi hvernig bönk­un­um hefði verið skipt upp eft­ir hrunið í inn­lenda og er­lenda starf­semi. Skipta hefði átt bönk­un­um upp eft­ir góðum og slæm­um eign­um og það væri raun­ar  ekki of seint. Enn væri hægt að skipta inn­lendu bönk­un­um í „góða og slæma" banka þannig að góðu bank­arn­ir geti lánað fé.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK