Stjórn Haga hf. hefur óskað eftir að hlutir í félaginu verði teknir til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq OMX Iceland. Stefnt er að því að viðskipti með hluti í félaginu hefjist í Kauphöllinni í desember næstkomandi, í kjölfar almenns hlutafjárútboðs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.
Þá segir að Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, hyggist selja 20-30% hlut í Högum hf. með almennu útboði. Því verði bæði beint að fagfjárfestum og almennum fjárfestum, en lágmarksáskrift verður að andvirði 100 þúsund krónur og hámarksáskrift að andvirði 500 milljónir króna.
Sölutímabil er áætlað 5.-8. desember næstkomandi og verður óskað eftir tilboðum á fyrirfram ákveðnu verðbili sem verður tilkynnt ásamt fyrirkomulagi útboðsins þegar útboðs- og skráningarlýsing verður gefin út, en það er fyrirhugað nú í lok nóvember.
Markmiðið er að útboðið marki grunn að góðri dreifingu á eignarhaldi Haga hf., og er þá bæði horft til þess að almenningur og fagfjárfestar eignist hlut í félaginu, en jafnframt er markmið seljandans að fá ásættanlegt verð fyrir eign sína í Högum.