„Við erum að hækka vexti vegna verðbólgunnar, ekki efnahagsbatans, það er ekki tímabært," sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á blaðamannafundi í dag þar sem fjallað er um vaxtaákvörðun bankans í morgun.
Már sagði að peningastefnunefndin teldi, að nafnvaxtastigið sé væntanlega á réttum stað og gæti verið það áfram næstu mánuði. En ef horft væri lengra fram á veginn væri ljóst, að ekki yrði hægt að vera með neikvæða raunvexti þegar hagvöxtur nær sér vel á strik.
Már sagði, að raunvextir væru nú neikvæðir og enn væri peningastefnan því að styðja við efnahagsbatann. Engar líkur væru á því, að vaxtahækkun bankans í morgun, um 0,25%, setti efnahagsbatann út af sporinu.