Spá 2,3% hagvexti á næsta ári

Spáð er að árlegur vöxtur heildarútflutnings verði að meðaltali um …
Spáð er að árlegur vöxtur heildarútflutnings verði að meðaltali um 2% á ári mbl.is/Golli

Hagvöxtur á fyrri hluta ársins reyndist 2½% og er gert ráð fyrir að hann verði rétt yfir 3% á árinu í heild. Þetta er heldur meiri hagvöxtur en spáð var í ágúst og skýrist helst af hagstæðari þróun utanríkisviðskipta. Horfur eru einnig betri fyrir næsta ár en spáð er 2,3% hagvexti á því ári. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í dag.

Spá 6% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi

Á næstu þremur árum er spáð um 2½% hagvexti að jafnaði. Útlit er fyrir að verðbólga verði heldur minni á seinni hluta ársins en spáð var í ágúst. Talið er að hún muni ná hámarki á fyrsta ársfjórðungi næsta árs í 6% en verði minni en spáð var í ágúst út næsta ár. Þar vegast á sterkara gengi krónunnar og minni innflutt verðbólga á móti minni slaka í þjóðarbúinu og heldur meira launaskriði en búist var við í ágúst. Samkvæmt spánni verður verðbólga komin í markmið í lok árs 2013. Mikil óvissa er hins vegar um verðbólguhorfur og styrk og varanleika innlends efnahagsbata, sérstaklega í ljósi viðsjárverðra alþjóðahorfa, segir í Peningamálum.

„Horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum hafa versnað frá því í sumar og orðið óvissari. Einkum hafa efnahagshorfur versnað í fjölda þróaðra landa sem glíma við mikinn skuldavanda. Horfur um alþjóðlegan hagvöxt og alþjóðaviðskipti eru því nokkru lakari en gert var ráð fyrir í ágúst. Á móti vegur að horfur eru á töluvert hagstæðari þróun viðskiptakjara Íslands.

Heldur meiri útflutningur í ár og lítillega minni vöxtur innflutnings á þessu og næsta ári en áætlað var í ágúst valda því að þótt framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar sé neikvætt bæði í ár og á næsta ári, er það hagstæðara en í ágústspánni. Neikvætt framlag þrátt fyrir hagstæða samkeppnisstöðu skýrist m.a. af því að sjávarútvegurinn býr við framleiðslutakmarkanir vegna takmarkaðs vaxtar fiskstofna og áliðnaður vegna langs fjárfestingartíma. Líklegt er að það taki einnig nokkurn tíma fyrir innlendar samkeppnisgreinar að mæta aukinni eftirspurn eftir innlendri framleiðslu. Bati innlendrar eftirspurnar kemur því mikið fram í auknum innflutningi. Vegna hagstæðara framlags utanríkisviðskipta til hagvaxtar og hagstæðari þróunar viðskiptakjara er útlit fyrir að afgangur á viðskiptajöfnuði verði nokkru meiri en spáð var í ágúst.

Spáð er að árlegur vöxtur heildarútflutnings verði að meðaltali um 2% á ári á spátímanum, sem er lakari vöxtur en spáð var í ágúst. Horfurnar eru reyndar heldur betri á þessu ári en spáin fyrir árið 2013 hefur versnað vegna minni þjónustuútflutnings og lakari álútflutnings. Þrátt fyrir kröftugan vöxt þjónustuútflutnings og mikla gerjun í vöruútflutningi utan stóriðju og sjávarafurða verður vöxtur heildarútflutnings áfram tiltölulega lítill ef tekið er mið af því hversu lágt raungengið er," segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka