Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag, að vaxtahækkun Seðlabankans í dag væri mikil vonbrigði og allar líkur væru á að hún seinkaði þeirri verðmætasköpun, sem þyrfti að verða í landinu.
Bjarni sagði, að vissulega væru tölur í Peningamálum Seðlabankans í dag, sem hægt væri að taka af hóflegri jákvæðni og hagvöxtur væri meiri en áður hefði verið spáð.
„En hagvöxturinn er algerlega að koma úr kjallaranum," sagði Bjarni. „Það er algerlega ótímabært fyrir menn að fagna nýju hagvaxtarskeiði. Við erum að vaxa með hraða snigilsins."
Hann sagði að fjárfesting í atvinnulífinu væri við sögulegt lágmark og einkaneysla á fyrri hluta þessa árs virtist fyrst og fremst byggð á launahækkunum sem Seðlabankinn hefði áhyggjur af.
„Aðalatriðið er að hér skortir enn nýja fjárfestingu, ný verkefni, hagvöxt sem byggir á verðmætaaukningu en ekki á vaxtabótagreiðslum ríkisins til einstaklinga sem eru í skuldavanda," sagði Bjarni.