Hlutabréf bandaríska netfyrirtækisins Groupon hækkuðu um 30% í verði í gær eftir að fyrirtækið safnaði 700 milljónum Bandaríkjadala, rúmum 80 milljörðum króna, í hlutafjárútboði. Útboðið er það stærsta hjá netfyrirtæki þar í landi síðan í hlutafjárútboði Google árið 2004 er félagið fór á markað.
Hlutabréf Groupon voru skráð á Nasdaq á genginu 20 dalir á hlut og fór verð þeirra hæst í 31,14 dali í gær en lokaverð þeirra í gærkvöldi var 26,11 dalir sem er 30,55% hækkun frá upphafsgenginu um morguninn.
Groupon var metið á 12,7 milljarða dala við skráningu þrátt fyrir að ýmsar spurningar hafi vaknað um bókhald félagsins og því hafi gengið erfiðlega að snúa tapi í hagnað.
Groupon, sem hafnaði 7 milljarða dala yfirtökutilboði frá Google í fyrra, seldi 35 milljónir hlutabréfa í útboðinu. Var verð á hlut 20 dalir sem er hærra verð heldur en búist var við að fengist fyrir bréfin.