Til stendur að ráðast í skuldabréfaútgáfu upp á 18 milljarða króna til að endurfjármagna sambankalán sem Austurhöfn-TR, eigandi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, tók í janúar í fyrra. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Fram kemur að Austurhöfn sé í 54% eigu íslenska ríkisins og 46% eigu Reykjavíkurborgar.
Þá segir að skuldabréfaútboðið eigi að fara fram á fyrsta ársfjórðungi ársins 2012 og verði innlent. Þetta staðfesti Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, dótturfélags Austurhafnar, sem haldi utan um eignarhald á Hörpunni.