77 mál til sérstaks saksóknara

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins mbl.is/Árni Sæberg

Rannsóknarhópur hefur verið starfandi innan Fjármálaeftirlitsins frá því í kjölfar hrunsins og var hann styrktur í samræmi við fjölgun í liði sérstaks saksóknara. Nú hafa samtals 77 mál verið send til sérstaks saksóknara til frekari rannsóknar og tugum mála hefur verið lokið hjá Fjármálaeftirlitinu án frekari aðgerða.

Þetta kom fram í máli Gunnars Þ. Andersens, forstjóra Fjármálaeftirlitsins á ársfundi eftirlitsins í dag.

169 mál rannsökuð

Rannsóknarhópar Fjármálaeftirlitsins eiga náið samstarf við embætti sérstaks saksóknara sem var stofnað í kjölfar bankahrunsins. Fjármálaeftirlitið hefur frá upphafi opnað 169 rannsóknarmál sem tengjast fjármálahruninu og búast má við að talsvert fleiri verði stofnuð á næsta ári.

Rannsóknum 124 mála er nú lokið og af þeim hefur 44 málum verið lokið hjá Fjármálaeftirlitinu án frekari aðgerða. Nokkrum rannsóknum lauk með öðrum hætti svo sem stjórnvaldssektum, segir í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins.

Margar rannsóknir ná yfir landamæri

Þau mál sem hefur verið vísað til sérstaks saksóknara ná yfir alla flokka meintra fjármálaglæpa, meðal annars markaðsmisnotkun, umboðssvik, innherjasvik, ranga upplýsingagjöf, fjárdrátt, falsanir, bókhaldssvik, þjófnað, peningaþvætti og fjársvik. Margar rannsóknir ná yfir landamæri og rannsóknarhópar vinna með systurstofnunum Fjármálaeftirlitsins á alþjóðavettvangi, bæði í gegnum samkomulag um samstarf í gegnum ESMA, Eftirlitsstofnun ESB á verðbréfamarkaði, og IOSCO, Alþjóðasamtök verðbréfaeftirlita, sem og tvíhliða samkomulag við aðra stofnanir, segir í ársskýrslu FME.

„Takmarkað traust almennings hlýtur að vera okkur hjá Fjármálaeftirlitinu áhyggjuefni, jafnt sem fjármálafyrirtækjunum sem við höfum eftirlit með. Traust ímynd verður einungis byggð upp með faglegum vinnubrögðum, áræðni í verki og árangri.

Leiðin til að endurheimta glatað traust verður bæði löng og ströng og þar þurfum við að vinna jöfnum höndum að því að treysta innviði Fjármálaeftirlitsins og styrkja upplýsingamiðlun. Við þurfum að gefa allar þær upplýsingar sem okkur er unnt og þegar við getum ekki svarað þurfum við að útskýra eins vel og við getum hvers vegna svo er,“ segir Gunnar.

Starfsemi FME nái hámarki á næsta ári

Starfsfólki Fjármálaeftirlitsins hefur fjölgað undanfarið ár eins og árin á undan. Um mitt ár 2011 voru starfsmenn 103 en voru 93 um mitt ár 2010. Í árslok er gert ráð fyrir að þeir verið 117. Fjölgun starfsmanna hefur orðið víða innan fjármálaeftirlitsins, meðal annars á sviði upplýsingatækni, við bankaeftirlit og áhættugreiningu og við uppbyggingu eftirlits með verðbréfamarkaði.

Gert er ráð fyrir að starfsemi Fjármálaeftirlitsins nái hámarki á næsta ári vegna umbóta- og uppbyggingarverkefna og vegna rannsóknarvinnu. Áætlað er að starfsmönnum fækki á árunum 2013 til 2015 þannig að fjöldi þeirra verði um eitt hundrað í árslok 2015 að því gefnu að löggjafinn bæti ekki verkefnum á stofnunina.

„Talan 100 er þó ekki heilög í þessu sambandi. Hún getur orðið önnur og jafnvel lægri. Mikilvægt er að stofnunin sé í kjörstærð með tilliti til þeirra verkefna sem henni ber að sinna og umfangs fjármálamarkaðarins,“ segir Gunnar.

Fjármálaeftirlitið hefur átt mikið samstarf við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, allt frá því að stjórnvöld ákváðu að leita eftir aðstoð hans í kjölfar hrunsins. Erlendur sérfræðingur um bankaeftirlit gerði í mars og apríl á þessu ári úttekt á Fjármálaeftirlitinu á grundvelli Grunnreglna um skilvirkt bankaeftirlit (Basel Core Principle for Effective Banking Supervision, eða BCP) en þær samanstanda af 25 stöðlum um lágmarkseftirlit með bankastarfsemi. Tilgangur staðlanna er meðal annars að samræma bankaeftirlit óháð löndum og gera eftirlitsstofnunum kleift að framkvæma sjálfsmat á starfsemi sinni. Niðurstaða úttektarinnar var að nokkuð vantaði upp á að Fjármálaeftirlitið uppfyllti öll skilyrði staðlanna. Unnin hefur verið aðgerðaáætlun sem spannar rúm tvö ár um hvernig úr því verði bætt og mun FME fara í samstarf með Finnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK