Framtakssjóðurinn efnahagslegt stórveldi

Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands mbl.is/Ómar

Greiningardeild Arion segir að óhætt sé að segja að Framtakssjóður Íslands (FSÍ) sé efnahagslegt stórveldi á íslenskan mælikvarða. Það er ef tekið er tillit til heildaráskriftarloforða í sjóðinn en þau nema rúmlega 54 milljörðum króna (aðeins þriðjungur hefur verið innkallaður).

„Með smá ýkjum (og gírun) mætti segja að fyrir svona mikið eigið fé mætti kaupa flestöll fyrirtæki landsins og fer FSÍ því með mikil völd sem gætu kannski verið vandmeðfarin.

Áætlaður líftími sjóðsins er 7 ár (með möguleika á framlengingu starfstíma í alls 13 ár) og kemur því kannski í veg fyrir að nýtt Samband líti dagsins ljós.

Framtakssjóðurinn losaði sig nýverið við 10% hlut sinn í Icelandair Group (á núna 19,01%), en það liggur ekki fyrir hverjir helstu kaupendur bréfanna voru en gera má ráð fyrir því að lífeyrissjóðir, sem eiga aðild að FSÍ, séu þar helstir.

Í því ljósi má velta fyrir sér hvert hlutverk FSÍ sé í raun og veru - hvort einstaka lífeyrissjóðir hefðu ekki getað keypt milliliðalaust t.d. í Icelandair Group á sínum tíma?

Til hvers að framselja vald sitt (þó lífeyrissjóðirnir eigi vissulega sitt fólk í stjórn FSÍ)? Þá má líka velta fyrir sér hvort það hafi í raun og veru þurft framtak í Icelandair Group þar sem sjóðurinn kom ekki að fjárhagslegri endurskipulagningu heldur lagði félaginu til aukið hlutafé," segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion-banka.

Þar kemur fram að ljóst sé að menn hafa skiptar skoðanir á íslenskum hlutabréfamarkaði og hvort endurreisn markaðarins sé yfir höfuð möguleg?

„Allavega er það ekki til að auka tiltrú markaðsaðila þegar framkvæmdastjóri FSÍ kemur fram opinberlega og segir Ísland of lítið fyrir hlutabréfamarkað. Líkt og kemur fram í reglum/lögum FSÍ þá er eitt af hlutverkum sjóðsins að endurreisa íslenskan hlutabréfamarkað með því að fjölga skráðum félögum á markaði.

Það geta flestir verið sammála um að fleiri nýskráningar eru klárlega það sem markaðurinn þarf á að halda í dag. Velta á hlutabréfamarkaði er aðeins brotabrot af því sem hún var hér á árum áður og með fleiri skráðum félögum myndi hún aukast jafnt og þétt. Þar sem FSÍ horfir til þess að eignarhlutir séu á bilinu 20-55% af hlutafé einstakra félaga liggur í hlutarins eðli að færri bréf geta skipt um hendur annarra fjárfesta þegar félög eru skráð á markað. Sem dregur úr hvata og vilja fjárfesta til að eiga viðskipti með skráð hlutabréf," segir í Markaðspunktum.

Í eignasafni sjóðsins eru eftirfarandi eignir (eignahlutir):

Icelandair Group (19%)

Icelandic Group (81%)

Skýrr (79%) 

Vodafone (79%)

Húsasmiðjan (100% - í söluferli)

Plastprent (100%) 

N1 (55% - háð áreiðanleikakönnun)

Promens (49,5%)

Stefnt er að skráningu Skýrr 2013 og N1 ekki seinna en á miðju ári 2013 en aðrar nýskráningar liggja ekki fyrir.

„Vissulega tekur endurskipulagning fyrirtækja mislangan tíma en mikið liggur við að sú vinna sem og endurreisn hlutabréfamarkaðar - sem er einn þáttur í endurreisn efnahagskerfisins hér á landi – gangi sem hraðast fyrir sig. Það er því mikilvægt að haldið sé vel á spöðunum svo ein helsta lífæð fyrirtækja, hlutabréfamarkaður, komist hér fyrr af stað en ella.

Eignarhald FSÍ á að skapa styrk og trúverðuleika, en það virðist vanta töluvert upp á trúverðugleikann og styrkurinn virðist fremur vera af þeirri stærðargráðu að aðrir minni fjárfestar fælast frá fjárfestingum, eða þeir líta svo á að ekki sé pláss fyrir þá við borðið. Borðið er jú stækkanlegt og því ætti að vera nóg pláss fyrir alla áhugasama fjárfesta," segir ennfremur í Markaðspunktum greiningardeildar Arion-banka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK