Landsbankinn er með allt of hátt eiginfjárhlutfall og gæti auðveldlega greitt ríkinu 50 milljarða króna arð. Staða bankans yrði eftir sem áður mjög sterk. Þetta kom fram í erindi Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), á morgunverðarfundi samtakanna í Hörpu í gær.
Hann sagði hátt eiginfjárhlutfall bankanna auka umtalsvert þörf þeirra fyrir vaxtamun og þjónustutekjur. „Hættan er sú,“ að sögn Vilhjálms, „að bankarnir þurfi að viðhalda 5% vaxtamun til lengri tíma.“
Vilhjálmur sagði að verulegur skortur væri á því af hálfu stjórnvalda að einhver framtíðarsýn um fjármálamarkaði væri mörkuð.
Fram kom í máli Vilhjálms að það væri rík þörf á eigendum sem hugsuðu um hag bankanna. Hann telur að ríkisstjórnin ætti af þeim sökum að fara að huga að því að selja hlut sinn í Landsbankanum. Í þeim efnum væri mjög æskilegt ef fleiri en einn íslenskur banki væri í eigu erlendra aðila.