Uppfært kl. 13.43
Flugfélagið Emirates Airlines, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hefur pantað fimmtíu Boeing 777 (ER)-þotur en heildarverðmæti þeirra er 18 milljarðar bandaríkjadala, um 2.100 milljarðar króna, að sögn sheikh Ahmeds bin Saeed Al-Maktoum, stjórnarformanns og forstjóra félagsins sem tilkynnti um kaupin á flugsýningu í Dúbai. Auk þess hefði félagið kauprétt á 20 Boeing 777-300ER-þotum.
Sheikh Amed sagði þetta langverðmætustu flugvélapöntun í sögu Boeing-flugvélaframleiðandans og ákveðinn áfanga í sögu þess félags. Alls næmi pöntunin og kauprétturinn 26 milljörðum dala, um 3.000 milljörðum króna.
Floti Emirates Airlines, sem er stærsta flugfélag Mið-Austurlanda, af langdrægum farþegaþotum telst í dag 40 þotur en með kaupum á 50 þotum til viðbótar stækkar langdrægi flotinn um rúmlega helming, upp í 90 þotur.
Félagið er með stærsta flota tveggja hreyfla 777-þotna í heiminum, með 95 slíkar þotur í rekstri. Alls er Emirates með 162 breiðþotur í rekstri og þjónar félagið 115 áfangastöðum í 67 löndum. Auk pöntunarinnar frá Boeing hefur Emirates pantað 73 Airbus A380-risaþotur og 70 Airbus A350-þotur.