Samkvæmt veltu smásöluverslana í Bandaríkjunum í október geta kaupmenn þar í landi vænst ágætrar jólaverslunar. Benda tölurnar að bandarískir neytendur muni opna veski sín í meira mæli en áður. Jókst veltan um 0,5% frá fyrri mánuði og reyndist vera 7,2% meiri en á sama tíma í fyrra. Er þessi aukning mun meiri en markaðssérfræðingar áttu von á.
Aukning varð í sölu á bílum og eldsneyti, sem og matvöru, eða um 0,7% í október í þessum vöruflokkum. Sala á raftækjum jókst um 3,7%, sem er mesta aukning milli tveggja mánaða í tvö ár. Er salan á nýjum iPhone talin eiga stóran þátt í þeirri aukningu. Fyrstu þrjá dagana seldi Apple yfir fjórar milljónir snjallsíma af þessari eftirsóttu tegund.
Jólaverslunin í Bandaríkjunum virðist líka fara betur af stað en menn þorðu að vona og hafa verslunareigendur strax boðið góð tilboð eftir að þakkargjörðarhátíðinni lauk. Einnig ætlar verslunarrisinn Wal-Mart að hafa opið lengur en áður.