Íslandsbanki hefur ekki innt af hendi neinar greiðslur til kröfuhafa bankans. Þetta segir í yfirlýsingu frá bankanum vegna umfjöllunar um málefni Íslandsbanka og kröfuhafa Glitnis.
„Frá stofnun Íslandsbanka hafa engar greiðslur farið frá Íslandsbanka til kröfuhafa Glitnis. Engar arðgreiðslur hafa verið greiddar til eigenda bankans, þ.e. Glitnis og íslenska ríkisins, og stjórnendur bankans kannast ekki við að hafi þrýst hafi verið á um slíkt.
Í úrskurði Fjármálaeftirlitsins frá 7. janúar 2010 var kveðið á um að eignarhald Íslandsbanka skyldi vera í höndum sérstaks dótturfélags Glitnis, ISB Holding, og skyldi stjórn þess vera að meirihluta skipuð stjórnarmönnum sem eru óháðir Glitni, kröfuhöfum og Íslandsbanka sjálfum. Félagið á 95% hlutafjár í Íslandsbanka og útnefnir 6 af 7 stjórnarmönnum bankans. Ríkið á 5% af hlutafé bankans og hefur einn fulltrúa í stjórn.
Í sjö manna stjórn Íslandsbanka sitja m.a. fjórir erlendir stjórnarmenn sem eru sérfræðingar í fjármálastarfsemi, endurskoðun og stjórnarháttum fyrirtækja. Þessir stjórnarmenn voru valdir inn í stjórn á faglegum forsendum og eru óháðir eigendum bankans,“ segir í yfirlýsingu frá bankanum.