FIH sendir reikninginn til Íslands

Höfuðstöðvar FIH við Löngulínu í Kaupmannahöfn.
Höfuðstöðvar FIH við Löngulínu í Kaupmannahöfn.

Danski bankinn FIH Erhvervsbank, sem danskir sparisjóðir keyptu af þrotabúi Kaupþings og Seðlabankanum haustið 2010, hefur boðað að hann muni segja upp útlánum til fasteignafélaga og afla þannig fjár til að endurgreiða lán sem danska ríkið veitti bankanum. Danska blaðið Børsen segir, að íslenska ríkið þurfi að axla hluta af útlánatapinu. 

Seðlabankinn átti veð í 99,89% hlut í FIH vegna 500 milljóna evra þrautavaraláns sem veitt var til Kaupþings haustið 2008. Danski bankinn var seldur til dönsku lífeyrissjóðanna ATP og PFA, sænska tryggingafyrirtækisins Folksam og fyrirtækisins CPDyvig í september í fyrra fyrir 5 milljarða danska króna, um 103 milljarða króna á þáverandi gengi.

Hluti kaupverðsins, 1,9 milljarðar danskra króna, var greiddur við kaupinn en afganginn átti að greiða á fjórum árum. Sú upphæð verður þó leiðrétt  með tilliti til þess taps sem FIH verður fyrir vegna eigna á efnahagsreikningi bankans á tímabilinu.

Fram hefur komið í dönskum fjölmiðlum, að FIH muni segja upp útlánum til fasteignafélaga, samtals 16 milljörðum danskra króna. Skýringin á þessu er sú, að á árunum 2012 og 2013 þarf bankinn að endurgreiða lán, sem hann fékk hjá danska ríkinu í tengslum við endurreisnaráætlun danskra stjórnvalda eftir fjármálakreppuna. Þessa peninga hafi bankinn ekki handbæra. 

Børsen hefur eftir Lars Rohde, fulltrúa lífeyrissjóðsins ATP í stjórn FIH, að ákvæðið um útlánatapið, í kaupsamningnum um FIH, hafi áhrif á aðgerðir bankans nú. 

„Við þurfum að grípa til aðgerða á markaðsforsendum. Við munum gæta hagsmuna lífeyrisþeganna. Það er ástæðan fyrir því að við bregðumst nú við eins og við gerum því ATP er ekki gjafavörubúð," segir Rohde við Børsen.

Hann segir, að Íslendingarnir hafi „first right of refusal”.  Það þýði að þeir geti yfirtekið lánin ef þeir telji að FIH gangi of hart fram. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK