Áform um byggingu kísilmálmverksmiðju á Bakka fara í uppám og grafið verður undan samkeppnisstöðu slíks iðnaðar á Íslandi ef lagt verður á nýtt kolefnisgjald.
Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil sem hyggst reisa verksmiðjuna, skrifaði um helgina bréf til allra þingmanna þar sem hann varar við afleiðingum þess að leggja gjaldið á, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Thorsil hefur um tveggja ára skeið unnið að undirbúningi kísilmálmverksmiðjunnar og hefur verið stefnt að því að hún verði gangsett á fyrsta ársfjórðungi 2015.