Það að stjórnvöld hyggist brjóta samkomulag sitt við stóriðjufyrirtæki er grafalvarlegt mál og dregur enn frekar úr trúverðugleika þeirra gagnvart erlendum fjárfestum.
Þetta segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í Morgunblaðinu í dag um áform ríkisstjórnarinnar um að hækka kolefnisskatt frá og með ársbyrjun 2013 og leggja hann ásamt skatti á raforku til frambúðar.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda, tekur í sama streng og segir að þessi áform stjórnvalda sendi þau skilaboð til erlendra fjárfesta að ekki sé hægt að treysta á gerða samninga, en í umsögn samtakanna um frumvarpið kemur fram að þau telji ákvæði frumvarpsins skýrt brot á samkomulaginu auk þess sem þau brjóti gegn ákvæðum í gildandi fjárfestingarsamningum. Þorsteinn bendir á að þessi skilaboð beinist ekki eingöngu að þeim erlendu fyrirtækjum sem nú þegar eru með starfsemi hér á landi heldur einnig að þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt fjárfestingu í stóriðju áhuga.