Ef tekið er mið af nýjustu þjóðhagsspá Seðlabankans þá verður landsframleiðsla Íslands 105 milljörðum króna lægri við árslok 2013 en hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerði ráð fyrir í nóvember árið 2008.
Þetta er niðurstaða útreikninga Samtaka atvinnulífsins (SA). „Landsmenn eru að borga reikninginn fyrir þessa ríkisstjórn, sem nýtir ekki þau tækifæri sem eru til staðar,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.
Í fyrstu hagspá AGS um horfur í íslensku efnahagslífi eftir hrun bankakerfisins haustið 2008 spáði sjóðurinn að umtalsverður hagvöxtur gæti hafist árið 2011 – og myndi mælast 13,8% á árunum 2011-2013. Hagspá Seðlabankans fyrr í þessum mánuði gerir hins vegar aðeins ráð fyrir 7,9% hagvexti á sama tímabili. Vilhjálmur bendir á að sú upphæð sem þjóðarbúið verður af, sökum minni hagvaxtar en spáð hafði verið, nemi á þriðja hundrað milljarða króna á árunum 2011-2013.
Vilhjálmur segir skort á fjárfestingum í hagkerfinu helstu ástæðu þess að hagvaxtarhorfur séu umtalsvert verri um þessar mundir en vonir höfðu staðið til fyrir þremur árum.