Rússneski kaupsýslumaðurinn Vladimir Antonov var handtekinn í Lundúnum í dag en hann er grunaður um fjársvik í tengslum við rekstur banka í Litháen. Fjárfestingarfélag Antonovs á enska knattspyrnuliðið Portsmouth, sem Hermann Hreiðarsson leikur með.
Lögregla í Lundúnum staðfesti, að 36 ára gamall rússneskur kaupsýslumaður hefði verið handtekinn eftir að stjórnvöld í Litháen gáfu út handtökuskipun sem gildir í öllum Evrópuríkjum.
Rannsókn er hafin í Litháen á starfsemi Bankas Snoras en grunur leikur á að eignum hafi verið komið undan úr búi bankans. Antonov er fyrrum stjórnarmaður í bankanum.
Lögreglan segir að annar karlmaður, 53 ára gamall, hafi einnig verið handtekinn í tengslum við málið í Lundúnum í dag. Talið er að það sé Raimondas Baranauskas, viðskiptafélagi Antonovs. Hann var um tíma stjórnarformaður Snoras.
Litháíska ríkið yfirtók rekstur bankans í síðustu viku og jafnframt hófst rannsókn á ásökunum um fjársvik og peningaþvætti. Antonov á 68% af hlutabréfum bankans, sem er sá fjórði stærsti í Litháen.
Saksóknarar segja, að þessir tveir fyrrum stjórnarmenn Snoras séu grunaðir um að hafa misfarið með eignir bankans í stórum stíl og um skjalafals.
Antonov eignaðist Portsmouth nú í júní. Félagið segir, að handtaka Antonovs hafi ekki áhrif á daglegan rekstur þess.