Yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda fyrirtækja telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar samkvæmt nýrri könnun Capacent meðal stærstu fyrirtækja landsins fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann.
Samkvæmt könnuninni, sem fjallað er um á vef Samtaka atvinnulífsins, telja 72% stjórnenda aðstæður vera slæmar, 26% að þær séu hvorki góðar né slæmar en 2% að þær séu góðar. Fleiri stjórnendur telja að ástandið versni en batni á næstunni, þótt flestir telji að þær breytist ekki.
Meiri svartsýni ríkir á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu í þessu efni og meiri svartsýni gætir í iðnaði og sjávarútvegi en í öðrum atvinnugreinum.
SA segir, að ekki séu horfur á því að fjárfestingar fyrirtækja aukist á þessu ári samkvæmt könnuninni. Rúmur helmingur stjórnenda telji, að fjárfestingar fyrirtækjanna verði svipaðar á þessu ári og árið 2010, fjórðungur að þær verði minni en tæpur fjórðungur að þær verði meiri. Útlit sé fyrir smávægilega aukningu fjárfestinga á höfuðborgarsvæðinu en samdrátt á landsbyggðinni.
Rúmlega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Segja SA, að ætla megi af svörum stjórnendanna að starfsmönnum þeirra fækki um 150-300 á næstu sex mánuðum, eða um 0,5-1%.
Langflestir, eða 62%, búast við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 15% áforma fjölgun starfsmanna en 23% búast við fækkun. Fækkun starfsmanna er áformuð í öllum þeim atvinnugreinum sem flokkað er eftir nema í sérhæfðri þjónustu, þar sem áform eru um fjölgun starfsmanna og í verslun þar sem búist er við óbreyttum starfsmannafjölda.
Flestir stjórnendur búa við nægt framboð af starfsfólki. Skortur á starfsfólki hafi þó heldur farið vaxandi undanfarin misseri, einkum á landsbyggðinni, og þær atvinnugreinar sem helst skortir starfsfólk eru sjávarútvegur og sérhæfð þjónusta. Þá er vinnuaflsskortur áberandi meiri í útflutningsfyrirtækjum en í öðrum fyrirtækjum.