Greining Íslandsbanka telur ólíklegt að verðbólgan á fjórða ársfjórðungi nái því að fara upp í 5,6% líkt og Seðlabankamenn spáðu í Peningamálum í byrjun mánaðar, enda yrði vísitalan að hækka um 1,3% í desembermánuði ef það ætti að ganga eftir og tólf mánaða verðbólgan að stökkva upp í 6,2%. Á deildin von á því að bankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi.
„Verðbólguþróun síðustu mánaða ber þess merki að þrýstingur á verðlag hefur minnkað talsvert frá fyrri hluta ársins. Samkvæmt nýbirtri mælingu Hagstofunnar stóð vísitala neysluverðs (VNV) í stað á milli október og nóvember.
Er þessi útkoma aðeins undir væntingum á markaði en opinberar spár höfðu reiknað með 0,1% hækkun. Skekkjan í spá okkar felst einna helst að við höfðum reiknað með minni lækkun á mat- og drykkjarvöru í mánuðinum, en á móti vegur að húsnæðisliðurinn er að hækka nokkuð umfram það sem við bjuggumst við. Er tólf mánaða verðbólga nú 5,2% en hún mældist 5,3% í október," segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
Greining telur að Seðlabankinn muni hinsvegar væntanlega benda á að kjarnaverðbólga hefur haldið áfram að aukast. „Þannig var verðbólga í nóvember 4,6% samkvæmt kjarnavísitölu 3 og hefur hún aukist stöðugt frá áramótum á þennan kvarða. Seðlabankinn horfir talsvert til þróunar þessarar vísitölu, en í henni eru sveiflukenndir liðir á borð við landbúnaðarvörur, eldsneyti, opinbera þjónustu og vaxtabreytingar í húsnæðislið eru undanskildir."