Lægri stýrivextir hefðu ekki áhrif á fjárfestingarstig á Íslandi því það eru aðrir þættir sem stjórna því sem hafa ekkert með innlenda peningastefnu að gera. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis nú í morgun.
Það var Birkir Jón Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, sem spurði peningastefnunefnd Seðlabankans að því hvers vegna stýrivextir hefðu verið hækkaðir á sama tíma og fjárfestingar á Íslandi væru í sögulegu lágmarki og þannig væri dregið úr hvata til fjárfestingar.
Sagði seðlabankstjóri, sem jafnframt er formaður peningastefnunefndar bankans, að hann hefði enga trú á því að það hefði áhrif á fjárfestingar þó að stýrivextir væru hálfu prósentustigi lægri. Ættu stýrivextir að hámarka fjárfestingar væru þeir alltaf í núlli.
Aðrir þættir hefðu áhrif á fjárfestingar, þar á meðal laskaðir efnahagsreikningar fyrirtækja, óvissa um umhverfi og eftirspurn og erfiðari fjármögnun vegna erfiðleika á erlendum mörkuðum. Ekkert af því kæmi innlendri peningastefnu við. Menn þyrftu að einbeita sér að því að laga þessi atriði því mikilvægt væri að auka fjárfestingu hérlendis.