Það að tímaritið The Economist segi í fyrirsögn að ef þýsk stjórnvöld og Evrópski seðlabankinn grípi ekki umsvifalaust til aðgerða þá verði hruni evrunnar ekki afstýrt segir mikið um þá stöðu sem er komin upp í skuldakreppu hins sameiginlega myntsvæðis.
Ótti og áhyggjur um að allt fari á versta veg einskorðast ekki lengur við jaðarmenni. Dómsdagsspámenn eru ekki lengur einir um að sjá fyrir hrun evrusvæðisins heldur eru matsfyrirtæki farin að sjá raunverulega hættu á fjöldagjaldþrotum aðildarríkja evrusvæðisins fyrir sér.
Í gær lýsti matsfyrirtækið Moody's því yfir að skuldakreppan græfi undan stöðu ríkissjóða aðildarríkja evrusvæðisins og að djúpstæðar efasemdir um getu einstakra ríkja til að endurfjármagna skuldir sínar færu nú vaxandi. Sérfræðingar Moody's óttast að stefnusmiðir á evrusvæðinu muni ekki bregðast nógu skjótt við vandanum og segja að líkurnar á röð ríkisgjaldþrota aðildarríkja myntsvæðisins séu ekki lengur fjarlægar. Viðvörun matsfyrirtækisins var opinberuð áður en nokkur af stærri hagkerfum evrusvæðisins ráðast í skuldabréfaútboð í vikunni. Belgíska og ítalska ríkið luku við útboð í gær en ávöxtunarkrafan í báðum útboðum var í hæstu hæðum. Auk þessara útboða munu franska og spænska ríkið ráðast í útboð í vikunni.
Fram kemur í skýrslu Moody's að þrátt fyrir hættuna á þjóðargjaldþrotum telji sérfræðingar matsfyrirtækisins að evrusvæðið muni haldast í núverandi mynd. En hinsvegar vara þeir við því að þau aðildarríki sem kunna að þurfa að fá lausafjárfyrirgreiðslu vegna endurfjármögnunar til lengri tíma muni glata lánshæfiseinkunn sinni og matið verða fært niður í ruslflokk. Ljóst er að þarna er átt við Ítalíu en skuldastaða ríkisins er með öllu ósjálfbær miðað við þá kröfu sem markaðurinn er að gera á skuldabréf stjórnvalda.
Þrátt fyrir að enginn telji að skuldakreppan verði leyst á einni nóttu telja margir sérfræðingar afar brýnt að samkomulag náist á meðal aðildarríkjanna og Evrópska seðlabankans um að bankinn verði stórtækari í aðgerðum sínum. Þarna er fyrst og fremst átt við bein kaup hans á ríkisskuldabréfum verst stöddu evruríkjanna eða þá að hann noti efnahagsreikning sinn til þess að verja skuldabréfaútgáfu þessara ríkja. Tímaritið The Economist telur að bankinn þurfi að feta sömu slóðir og bandaríski seðlabankinn og Englandsbanki og hefja hreina og beina peningaprentun til þess að kaupa megi tíma við lausn vandans.
Ljóst er að taugatrekkjandi dagar eru framundan á mörkuðum og kastljósið er farið að beinast að næsta leiðtogafundi Evrópusambandsins sem fer fram í næstu viku. Það kann að skipta sköpum fyrir framhaldið hvort leiðtogarnir koma loks með trúverðuga lausn á vandanum sem við er að etja.
Þrátt fyrir mikla gagnrýni hefur Evrópski seðlabankinn keypt ríkisskuldabréf verst stöddu evruríkjanna fyrir ríflega 200 milljarða evra frá því að hann hóf slík kaup í maí í fyrra. Í síðustu viku keypti hann ríkisskuldabréf Portúgals, Ítalíu, Írlands, Grikklands og Spánar fyrir tæplega 9 milljarða evra. Þessi miklu inngrip hafa til þessa ekki skilað þeim árangri að söluþrýstingur á ofangreind ríkisskuldabréf hafi minnkað.