Stærstu seðlabankar heims hafa ákveðið að taka höndum saman og koma evru-svæðinu til bjargar með því að dæla lausafé inn í fjármálakerfið. Ákvörðunin hefur þegar haft gríðarleg áhrif á fjármálamarkaði og hafa bæði hlutabréf og evra hækkað í verði.
Um er að ræða Seðlabanka Bandaríkjanna, Seðlabanka Kanada, Englandsbanka, Seðlabanka Japans, Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Sviss. Með þessu er vonast til þess að hægt verði að forðast heimskreppu með tilheyrandi áhrifum á flest, ef ekki öll, þjóðfélög heims.
Fjölmargir bankar eiga í verulegum vanda vegna stöðu sinnar í ríkisskuldabréfum þeirra ríkja á evru-svæðinu sem eru mjög skuldsett, svo sem grísk, ítölsk, portúgölsk ofl. Þetta hefur þýtt að bankarnir hafa verið tregir til þess að lána, einkum og sér í lagi á erlendum mörkuðum. Þetta hefur þýtt að vandinn á evru-svæðinu hefur breiðst út um heiminn.
Seðlabankarnir, sem geta prentað seðla, segjast munu tryggja að nægjanlegir sjóðir verði fyrir hendi fyrir fjármálastofnanir og með því verði hægt að tryggja að áhrif kreppunnar verði sem minnst á fyrirtæki og heimili. Lánalínurnar verða í boði frá 5. desember til 1. febrúar 2013 í þeim gjaldmiðlum sem þeir starfa í. Strax verður boðið upp á skammtímafjármögnun.
Er aðgerð seðlabankanna nú svipuð þeirri og var þann 10. maí árið 2010 er Grikklandsvandinn varð ljós með tilheyrandi áfalli fyrir fjármálamarkaði.
Í Bandaríkjunum hefur Dow Jones vísitalan hækkað um 2,49%, S&P 500 um 2,31% og Nasdaq um 2,74%.
Í Lundúnum hefur FTSE vísistalan hækkað um 3,04%, CAC vísitalan í París hefur hækkað um 3,61% og DAX vísitalan í Frankfurt um 4,31%. Í Mílanó hefur FTSE Mib vísitalan hækkað um 3,79% og í Madríd nemur hækkun Ibex vísiölunnar 3,38%.