Svartsýni ríkir meðal íbúa á evru-svæðinu ef marka má væntingavísitölu sem birt var í gær fyrir svæðið. Samkvæmt henni hafa væntingar neytenda evrusvæðisins nú ekki verið minni í rúmlega tvö ár.
Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka kemur fram að væntingarnar hafi minnkað fimm mánuði í röð.
„Þá hefur vísitala efnahagslífsins á evrusvæðinu ekki verið lægri í tvö ár og er nú 93,7 stig, en vísitalan mælir mat neytenda og stjórnenda á núverandi aðstæðum í hagkerfinu. Ekki þarf að koma á óvart að væntingar í Evrópu séu nú laskaðar ef tekið er mið af því ástandi sem þar ríkir vegna skuldakreppunnar.
Leiðtogar Evrópusambandsins hafa hingað til ekki getað komið sér saman um sannfærandi stefnu til að leysa vandann og slá í eitt skipti fyrir öll á áhyggjur af því hvort hið 17 þjóða myntbandalag Evrópu liðist í sundur á næstu mánuðum. Erfiður niðurskurður blasir við í mörgum evruríkjum sem mun koma við illa við almenning í þessum löndum og horfurnar hafa versnað. Í nýrri hagspá OECD er spá um hagvöxt á evrusvæðinu lækkuð verulega og býst stofnunin nú aðeins við 0,2% hagvexti á evrusvæðinu á næsta ári og 1,6% vexti árið 2013. Í gær var væntingavísitala neytenda í Bretlandi einnig birt, en þar líkt og annars staðar í Evrópu eru neytendur svartsýnir og hækkaði vísitalan aðeins um eitt stig og er nú -31 stig," segir í Morgunkorni.
Þrátt fyrir að blikur séu einnig á lofti í Bandaríkjunum virðast neytendur þar ekki vera viðlíka svartsýnir og í Evrópu, í það minnsta ekki þennan mánuðinn. Samkvæmt tölum sem birtar voru í gær hækkaði væntingavístala bandarískra neytenda um 15 stig í nóvember frá fyrri mánuði og stendur vísitalan nú í 56 stigum. Væntingar neytenda til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir sex mánuði bötnuðu einnig nú í nóvember sem bendir til aukinnar bjartsýni varðandi framtíðina.
Þá batnaði einnig mat neytenda á vinnumarkaðinum, en þeim sem sögðu að það væri erfitt að finna starf fækkaði niður í 42,1% nú í nóvember frá 46,9% í október. Þeim sem sögðu að það væri nóg af störfum fjölgaði og eru nú 5,8% en ekki 3,6% eins og síðast. Þrátt fyrir að væntingavísitala bandarískra neytenda og undirvísitölur hækki nú þennan mánuðinn eru væntingar ennþá í sögulegri lægð og ljóst er að enn vantar mikið upp á til að hægt sé að tala um varanlegan viðsnúning í þeim efnum, enda enn blikur á lofti í bandarísku efnahagslífi líkt og svo víða annars staðar, segir í Morgunkorni.