Óttinn við fall evrópsks risabanka kann að vera ástæða þess að stærstu seðlabankar heims komu evrusvæðinu til hjálpar í gær. Starfsmenn greiningadeildar Nordea-bankans segja að sá kvittur gangi í fjármálaheiminum að nærri hafi legið að bankahrun yrði í Evrópu.
Engin skýring var gefin opinberlega á því hvers vegna seðlabankarnir stóru komu skyndilega til hjálpar í gær. „Vangavelturnar ganga út á að evrópskur stórbanki hafi ekki lengur átt aðgang að lánsfé og minnugir mistakanna með Lehman Brothers mætti það ekki endurtaka sig vegna skorts á aðgangi að lánsfé,“ segir m.a. í morgunpistli greiningardeildar Nordea, að sögn fréttavefjarins epn.dk.