Fyrirhugaðar breytingar á lögum um innstæðutryggingar munu að líkindum hafa þau áhrif að fjármunir, sem fram til þessa hafa verið á innlánsreikningum bankastofnana, eiga í auknum mæli eftir að leita til annarra fjárfestingakosta – einkum ríkisskuldabréfa og fasteigna.
Þetta kemur fram í skýrslu IFS Greiningar um skuldabréfamarkaðinn.
Til hefur staðið í nokkurn tíma að ráðast í breytingar á innstæðutryggingakerfinu, en efnahags- og viðskiptaráðherra kynnti nýlega efnhagsáætlun ráðuneytisins þar sem fram kemur að stefnt sé að lögleiðingu nýs innstæðutryggingakerfis fyrir lok þessa árs. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er hins vegar óvíst hvort það muni takast fyrir þann tíma.
Í frumvarpi um innstæðutryggingar, sem lagt var fram í fyrra, var lagaleg skilgreining á hugtakinu „innstæða“ þrengd frá núgildandi lögum. Heildsölu- og peningamarkaðsinnlán eru ekki lengur talin til innstæðna og sömuleiðis innstæður fyrirtækja þar sem innlánsstofnun fer með virkan eignarhlut.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Örn Karlssson, hagfræðingur hjá IFS Greiningu, að verði sambærilegt frumvarp að lögum sé líklegt að stór fyrirtæki, sem hafi tekist að byggja upp góða sjóðsstöðu á undanförnum misserum, muni hafa meiri ástæðu en áður til að leita annarra fjárfestingakosta en innlánsreikninga.