„Skuldaskrímslið“ stefnir á Holland

Frá Amsterdam
Frá Amsterdam

Hollensk heimili skulda hlutfallslega meira í húsnæðislánum en nokkur önnur þjóð á evrusvæðinu. Skuldsetningin þýðir að versnandi kjör á lánamörkuðum munu koma hart niður á hollenskum almenningi og rýra lífskjör hans.

Skuldir hollenskra heimila sem hlutfall af árstekjum námu um 250% árið 2010, að því er fram kemur í fréttaskýringu á vef Wall Street Journal. Til samanburðar var hlutfallið um 130% í Portúgal og ríflega 100% í Finnlandi sama ár.

Meðaltalið á evrusvæðinu var þá 98,5%.

Athygli vekur að í Þýskalandi var hlutfallið aðeins 88,9% en það þýðir að hollensku heimilin skulduðu hartnær þrefalt meira sem hlutfall af árstekjum.

Þegar verðbólgan rýrir kjör almennings er stundum talað um verðbólgudrauginn. Önnur efnahagsleg forynja leit dagsins ljós í fréttaskýringu EU Observer fyrir rétt rúmu ári þegar skuldaskrímslið í Evrópu var fyrst nefnt á nafn.

Skrímslið hefur þegar fellt leiðtoga í Evrópu og ógnar nú tilverugrundvelli evrunnar.

Það þykir styrkja stöðu Hollands að skuldir hins opinbera sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru aðeins um 64%, auk þess sem góður afgangur er af viðskiptum við útlönd.

Þá er atvinnuleysi í Hollandi aðeins um 4,3% en það þýðir aftur að almenningur hefur ekki neyðst til að selja fasteignir sínar vegna atvinnumissis. Á hinn bóginn hefur fasteignaverð staðið í stað eða lækkað síðan fasteignabólan sprakk 2008, að sögn Wall Street Journal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK